18 apríl 2008

"Kanski er pólitíkið bara dauður ísbjörn"

Hún dóttir mín *hristihaus*...sagði við mig í morgunsárið - "mamma, ég er bara aaaaalltaf í blöðunum - veistuþa!"
Það var ss mynd í blaði í gær af leikskóladeildinni hjá þeim stöllum og það jú sást glitta í þær, Önnu Þrúði og Petru...
Nema hvað í dag er svo viðtal við dísina í DV - þar sem "Dísa frænka" ákvað að taka bara við hana viðtal í sunnudagsbrunsinu...
Þetta er ss útkoman :)



"Kanski er pólitíkið bara dauður ísbjörn"

Anna Þrúður Auðunsdóttir er 5 ára og býr í Keflavík. Hún var svo vinsamleg að tala við mig og gaf mér leyfi til að deila samtalinu með lesendum DV.
Hér á eftir fer spjallið okkar.

Hvað finnst þér skemmtilegast?
* Að vera allsber úti í sólinni og hoppa á bossanum á tramólíni; ég á sko trampólín og get hoppað næstum alveg upp í himininn.

Hvað finnst þér leiðinlegast?
* Að fara að sofa og vera í baði og liggja í leti og sitja í leti; það er hundleiðinlegast að gera ekki neitt

Hvað finnst þér fallegast?
* Húsið mitt í Keflavík er fallegast af því að það eru fuglamyndir á því og fuglar eru svo fallegir og líka fiðrildi og blóm.

Hvað finnst þér soglegast?
* Mér finnst bara sorglegt þegar að pabbi minn er ekki hjá mér.

Segðu mér um mennina:
* Allir menn eru sætir af því að það er enginn ljótur.

Segðu mér um börnin:
* Lítil börn hvíla sig alltaf af því að annars verða þau ekki stór. Mér finnst gott að vera eins lítil og ég er og mig langar alltaf að vera krakki og ég er krakki ennþá og mig langar ekki til að verða fullorðin. Ég vil stundum leika við mömmu mína og þá vill hún leika við mig. En stundum er hún upptekin og þá leik ég bara við einhvern krakka, ef það er einhver krakki heima hjá mér einsog til dæmis Petra eða Logi; þau eru vinir mínir.

Segðu mér um jörðina:
* Jörðin passar allt sem er á landinu af því að hún er lifandi einsog trén, það má alls ekki meiða jörðina af því þá meiðir hún mann.

Segðu mér um sólina:
* Sólin er falleg og rauð en maður sér hana bara gula. Sólin lætur mér líða vel og gerir bjart úti; mér finnst vænt um sólina.

Segðu mér um hamingjuna:
* Ég er hamingjusöm þegar að mamma leyfir mér að gera það sem ég vil gera og þegar að enginn skilur mig útundan.

Segðu mér um ástina:
* Ég elska mömmu mína og pabba og alla sem ég þekki og líka mig af því að ég þekki mig. Ég á litla systur sem heitir Antonía Björk og þegar að sumarið er búið fæ ég kanski bróður.

Segðu mér um vini:
* Allir eiga að vera vinir en sumir eru ekki vinir.

Segðu mér um pólitík:
* Ég veit ekkert um það, kanski er það bara dauður ísbjörn.

Segðu mér um bækur:
* Þegar bækur eru rifnar er ekki hægt að lesa þær eða skoða þær.

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?
* Ég ætla að vinna með mömmu minni og reyna að fá útlendinga til að koma til Íslands í ferðalög.

Ef þú mættir óska þér einhvers hvers mundirðu þá óska þér?
* Að ég væri orðin sjö ára og byrjuð í skóla og að allir fengju að borða í heiminum og svo vildi ég líka vera fiðrildi af því að þau eru svo falleg. Einu sinni í draumi borðaði ég gult smartís og breyttist í páfagauk. Maður getur alveg farið í ævintýri í draumunum sínum.

Eftir spjallið setti Anna Þrúður Auðunsdóttir upp bleikan hatt og dreif sig í Borgarleikhúsið með ömmu sinni og alnöfnu; þær ætluðu að sjá Gosa - þann dæmalausa strák sem var stundum úr tré og stundum ekki.

1 ummæli:

Anna K i Koben sagði...

Hún er nú meira krúttið hún frænka mín. Skemmtilegt hvernig hún hugsar. Eru börn ekki bara yndisleg.